Veftré     Fyrirspurnir   


Fleiri Pistlar

Tengdar greinar
Umfangsmikið stjórnunar- og eftirlitskerfi í Svíþjóð
Ótímabærar fregnir af útrýmingu þorsk
Umhverfismerktar sjávarafurðir í vandræðum
Listin að segja “rétt” frá
Neðansjávarmyndavél Háskólans á Akureyri
Nýir bjargvættir?
Kvótakerfi og byggðamál
Seafood and Health 2005
Líffræðileg fjölbreytni eða fiskveiðar?
“Stórhættulegur” eldislax
Hvenær er fallegt fallegast?
Óðurinn til fáfræðinnar
“Hvalveiðar eins og að skjóta á húsdýr”
Misskilningur um afstöðu til hvalveiða
Brottkastið
Er “umhverfishyggð” Íslendinga að minnka?
Læra af Íslendingum að bregðast við brottkasti
Er ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að bregðast?
Vistaskipti Hafrannsóknastofnunar?
Fiskveiðar og dýravernd
Yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar


Hval- og togveiðibann - fyrir hverja?

Pétur Bjarnason
11. janúar 2007

Umdeild ákvörðun Einars Kr. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra um að leyfa hvalveiðar s.l. sumar vakti athygli og deilur. Engin gat átt von á öðru. Hitt vakti meiri furðu að andstaða Íslands á vettvangi SÞ við tillögu um að banna togveiðar á djúpsævi vakti einnig deilur. Öflugir íslenskir stjórnmálamenn, sem greinilega höfðu ekki kynnt sér málin, töluðu um að þarna hefði hjá garði farið gott tækifæri Íslendinga til þess að sýna jákvæða afstöðu í umhverfismálum.


Jákvæð afstaða - skynsöm afstaða

Um þá afstöðu sérstaklega má hafa mörg orð. Það skortir ekkert á tækifæri til þess að sýna jákvæðni í umhverfismálum. Það er raunar Íslendingum – eins og öðrum sem þurfa að lifa á náttúrulegum auðindum - í blóð borið að vera með ábyrga afstöðu í umhverfismálum. En það er vandi að hugsa skynsamlega. Eflaust myndi það vekja mesta jákvæða athygli ef við myndum hreinlega hætta að nýta auðlindir sjávar og leyfa náttúrunni að þróast án okkar afskifta rétt eins og maðurinn sé ekki hluti hennar. Og það finnst fólk, sem myndi fagna slíkri afstöðu og finnast hún jákvæð. Vandinn er hins vegar stærri en svo. Við Íslendingar þurfum að nýta auðlindir sjávar. Íbúar jarðar þurfa að nýta þá fæðu, sem hafið getur gefið okkur. Þess vegna þarf skynsöm hugsun að vera á bak við ákvarðanir um nýtingu auðlinda sjávar. Ekki bara þörf á að nýta þau tækifæri sem gefast til þess að sýna jákvæða afstöðu í umhverfismálum.

 

Íslendingar hafa stefnu

Afstaða Íslands til nýtingar auðlinda sjávar hefur lengi byggst á því viðhorfi að nýta beri auðlindir sjávar á sjálfbæran hátt. Við viljum byggja á vísindalegum niðurstöðum um hvaða veiðiálag hver stofn þoli og nýta hann að því marki og að sjálfsögðu á þann hátt að náttúran beri að öðru leyti ekki skaða af. Við teljum að ákvörðun um hvernig að veiðum sé staðið og ábyrgð á því eigi að vera í okkar höndum, þegar um er að ræða stofna, sem alfarið eru innan okkar lögsögu, en tökum þátt í starfi alþjóðlegra svæðisbundinna stofnanna þegar um er að ræða auðlindir, sem önnur lönd eiga rétt á með okkur. Við höfum alfarið staðið á móti því að yfir okkur sé sett hnattræn alþjóðleg stofnun, sem hafi úrslitavald um hvernig við eigum að standa að okkar veiðum. Um þetta hefur ríkt sæmileg samstaða hér á landi um áratuga skeið.

 

Afvegaleidd hvalaumræða

Þegar hvalveiðar voru bannaðar á vettvangi Alþjóða hvalveiðiráðsins á sínum tíma trúðu því fáir að þar væri að hefjast ævarandi bann við hvalveiðum. Öfgafullir ,,umhverfisverndarsinnar” hðfðu að vísu komist að því að það var gróðavænleg leið að afvegaleiða ,,upplýst” efnað fólk á vesturlöndum og fá það til þess að opna veski sín með því að glæða hvali mannlegum eiginleikum. Fólki var talið trú um að hvalir væru gáfuð dýr og ræktuðu fjölskyldubönd af skyldurækni og hefðu mikla félagslega yfirburði miðað við önnur dýr. Þessi fallegu, gáfuðu og nánast mannlegu dýr væri grimmdarskepnan, maðurinn, að drepa. Falsáróður ,,umhverfisverndarsinna” hefur dugað til að viðhalda banni við hvalveiðum í tuttugu ár og lítil von til þess að úr rætist. Og það er vert að taka eftir því að hvalveiðibanni er fram haldið með þeim rökum að stofnar þoli ekki veiði, þótt vísindalegar niðurstöður styðji ekki þau rök.

 

Tilfinningaþrungin togveiðiumræða

Tillaga um bann við botnvörpuveiðum á djúpsævi er af sömu rótum runnin. Hún er liður í því að banna togveiðar alfarið og í framhaldi af því að gera 30 til 40% af hafsvæðum jarðar að þjóðgörðum. Þótt sú tillaga, sem tekist var á um, hefði verið samþykkt hefði hún í sjálfu sér ekki beint snert hagsmuni Íslands, en hún hefði verið fordæmi um ranga aðferðafræði við fiskveiðistjórnun. Hún hefði verið í andstöðu við þá stefnu að stjórna fiskveiðum á grunni sjálfbærni og samþykkt hennar hefði veikt grunn þeirrar stefnu. Hún hefði verið í andstöðu við hagsmuni Íslands.

 

Eðlilegur grundvöllur stjórnunar

Óraunsæjar hugmyndir um mannlega eiginleika hvala og tilfinningaleg afstað til einstakra veiðarfæra er ekki sá grundvöllur sem þjóðir, sem byggja afkomu sína að einhverju leyti á nýtingu lifandi auðlinda sjávar, geta sætt sig við. Saga Alþjóðahvalveiðiráðsins er augljóst viðvörunarmerki í því tilliti fyrir allar þjóðir sem stunda fiskveiðar. Skynsömum stjórnmálamönnum þjóða í þeirri stöðu ætti að vera þetta ljóst og til þeirra er gerð sú krafa. Við gerum ekki sömu kröfu til samtaka “umhverfisverndarsinna” sem oftar en ekki tapa tengslunum við raunveruleikann.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. janúar 2007
Fiskifélagsvefurinn er unnin af Origo ehf.