Veftré     Fyrirspurnir   


Fleiri Pistlar

Tengdar greinar
Umfangsmikið stjórnunar- og eftirlitskerfi í Svíþjóð
Ótímabærar fregnir af útrýmingu þorsk
Umhverfismerktar sjávarafurðir í vandræðum
Listin að segja “rétt” frá
Neðansjávarmyndavél Háskólans á Akureyri
Nýir bjargvættir?
Kvótakerfi og byggðamál
Seafood and Health 2005
Líffræðileg fjölbreytni eða fiskveiðar?
“Stórhættulegur” eldislax
Hvenær er fallegt fallegast?
“Hvalveiðar eins og að skjóta á húsdýr”
Misskilningur um afstöðu til hvalveiða
Brottkastið
Er “umhverfishyggð” Íslendinga að minnka?
Hval- og togveiðibann - fyrir hverja?
Læra af Íslendingum að bregðast við brottkasti
Er ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að bregðast?
Vistaskipti Hafrannsóknastofnunar?
Fiskveiðar og dýravernd
Yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar


Óðurinn til fáfræðinnar

Pétur Bjarnason
25. apríl 2003

Það velkist enginn í vafa um að þekking á fiskstofnum og vistkerfi hafsins er Íslendingum mikilvæg. Skynsamleg nýting auðlinda hafsins, sem er
undirstaða góðra lífskjara hér á landi, er þessari þekkingu háð. Enda höfum við öfluga stofnun, Hafrannsóknastofnunina, til þess að sinna rannsóknum á þessu sviði og niðurstöður rannsókna eru árlega eða oftar lagðar undir dóm færustu sérfræðinga heimsins. Óháð því hvaða kerfi við notum síðan til þess að stjórna veiðum á Íslandsmiðum þurfum við á þessari öflugu þekkingu að halda.

Það er í sjálfu sér engin furða að skoðanir séu misjafnar um þær niðurstöður sem vísindin birta okkur og ekkert að því að þær séu teknar til gagnrýninnar sundurgreiningar af lærðum og leikum þegar sá gállinn er á mönnum. Það er heldur ekki horfandi fram hjá því að fræðin færa mönnum ekki allan sannleika og vísindin geta verið skeikul. Það er engu að síður staðreynd að þau rök, sem vísindamenn Hafrannsóknastofnunarinnar hafa fyrir sínum niðurstöðum, hafa staðist gagnrýni og full ástæða til að taka alvarlega þegar hvatt er til að fara varlega í sókn í nytjastofna.

 Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið hefur alla tíð verið umdeilt. Mikið fer fyrir gagnrýni en síður er bent á skynsamlega valkosti. Það merkilega er hins vegar að svo virðist að þeir sem vilja aflamarkskerfið feigt eigi það sameiginleg að trúa ekki né treysta alþjóðlega studdum niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar. Það er rétt eins og “óðurinn til fáfræðinnar” – listin að horfa fram hjá vísindalegum staðreyndum - sé undirstaða þess að taka upp breytt fyrirkomulag við stjórn fiskveiða.

Þeir sem berjast fyrir breyttu kerfi fiskveiðistjórnunar verða að snúa við blaðinu. Þeir verða að snúa sér að því að útskýra hverju þeir vilja breyta og rökstyðja á trúverðugan hátt hvernig breytt kerfi stuðlar betur að markmiðum fiskveiðistjórnunar. Og þar dugir ekki að bera aðeins saman kosti hins breytta kerfis og galla núverandi kerfis. Það er líka mikilvægt að þeir hinir sömu geri sér grein fyrir því og viðurkenni að nýtt kerfi þarf einnig að byggja á bestu fáanlegri þekkingu á fiskifræði og vistkerfi hafsins. Það verður aldrei hægt að líta fram hjá þeim staðreyndum sem liggja fyrir um ástandið í hafinu. Óskhyggjan er ekki gott veganesti við fiskveiðistjórnun og það verður létt í vasa að segja “ó afsakið!” ef spekingar umræðunnar ná að rústa skynsamlegri nýtingu fiskistofnanna við landið á grundvelli tómstundafiskifræði sem ekki stenst fagleg rök.

Birt í Morgunablaðinu 25. apríl 2003
Fiskifélagsvefurinn er unnin af Origo ehf.