Veftré     Fyrirspurnir   


Fleiri Pistlar

Tengdar greinar
Umfangsmikið stjórnunar- og eftirlitskerfi í Svíþjóð
Ótímabærar fregnir af útrýmingu þorsk
Umhverfismerktar sjávarafurðir í vandræðum
Listin að segja “rétt” frá
Neðansjávarmyndavél Háskólans á Akureyri
Nýir bjargvættir?
Kvótakerfi og byggðamál
Seafood and Health 2005
Líffræðileg fjölbreytni eða fiskveiðar?
“Stórhættulegur” eldislax
Hvenær er fallegt fallegast?
Óðurinn til fáfræðinnar
Misskilningur um afstöðu til hvalveiða
Brottkastið
Er “umhverfishyggð” Íslendinga að minnka?
Hval- og togveiðibann - fyrir hverja?
Læra af Íslendingum að bregðast við brottkasti
Er ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að bregðast?
Vistaskipti Hafrannsóknastofnunar?
Fiskveiðar og dýravernd
Yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar


“Hvalveiðar eins og að skjóta á húsdýr”

Pétur Bjarnason
29. ágúst 2003

Ofangreind fyrirsögn, sem ég sá nýlega í Fréttablaðinu og var höfð eftir forystumanni í ferðaþjónustinni, vakti athygli mína. Þótt ætla mætti að fyrirsögnin lýsti skilningi viðkomandi á því að hvalveiðar lúta að mörgu leyti sömu lögmálum og búrekstur er ég smeykur um að sá skilningur hafi ekki verið efst í huga þess sem orðin voru höfð eftir.

Sú staðreynd að dýrum er slátrað og afurðirnar étnar er orðin mörgum nútímamönnum ofraun að hugsa til. Það er erfitt að hugsa til þess að litlu lömbin, sem vekja í hverju brjósti upp tilfinningar væntumþykju þegar þau skoppa um í haganum, eru að hausti orðin að lærasneiðum og kótilettum á veisluborðum. Nautgripirnir - heimspekilegir og gæflyndir á svip - eru fyrr en varir orðnir að hamborgurum og allir kjúklingabitarnir á skyndibitastöðunum voru einu sinni lifandi dýr, sem ekki höfðu annan tilgang með lífi sínu en að seðja hungur fólks. Þetta eru staðreyndir lífsins og þær breytast ekki þótt höfðinu sé stungið í sandinn. 

Það er velþekkt í hinum svokallaða “upplýsta” heimi vesturlanda að fjöldi fólks velur að horfa framhjá hinni augljósu hringrás, sem leiðir til þess að við fáum kjöt að borða. Fávísin í hinum “upplýsta” heimi er slík að því er haldið fram að fjöldi fólks í Bandaríkjunum gerir sér enga grein fyrir því að kjötið sem þau kaupa í neytendapakkningum í stórverslunum hafi einhvern tímann verið vöðvar lifandi dýra. Það tengir á engan hátt uppruna kjötsins við neitt, sem þau þekkja.

Þetta fólk er auðveldur skotspónn þess stóriðnaðar sem nútíma “umhverfisvernd” er orðin. Hvalir hafa þá náttúru að vekja upp sérstakar kenndir hjá þessu fólki og því er barátta fyrir “verndun” hvala sérlega árangursrík leið að pyngju þess. Fávísin er því oft grundvöllur fjárhagslegs árangurs svokallaðra “umhverfisverndarsamtaka”.

Í sjálfu sér kemur ekki á óvart að þeir sem hafa af því atvinnu að sýna  ferðafólki hvali skuli vera tortryggnir út í  hvalveiðar – jafnvel þótt veiðarnar séu óverulegar og aðeins í því skyni að kanna áhrif hrefnunnar á vistkerfi við strendur landsins. Það sem kemur á óvart er að hér á landi skuli vera farið að örla á því skilningsleysi á samhengi hlutanna, sem fyrirsögnin vitnar um. Hvalirnir eru nefnilega ekki einu húsdýrin sem eru skotin.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. ágúst 2003
Fiskifélagsvefurinn er unnin af Origo ehf.