Veftré     Fyrirspurnir   


Fleiri Pistlar

Tengdar greinar
Umfangsmikið stjórnunar- og eftirlitskerfi í Svíþjóð
Ótímabærar fregnir af útrýmingu þorsk
Umhverfismerktar sjávarafurðir í vandræðum
Listin að segja “rétt” frá
Neðansjávarmyndavél Háskólans á Akureyri
Nýir bjargvættir?
Kvótakerfi og byggðamál
Seafood and Health 2005
Líffræðileg fjölbreytni eða fiskveiðar?
“Stórhættulegur” eldislax
Óðurinn til fáfræðinnar
“Hvalveiðar eins og að skjóta á húsdýr”
Misskilningur um afstöðu til hvalveiða
Brottkastið
Er “umhverfishyggð” Íslendinga að minnka?
Hval- og togveiðibann - fyrir hverja?
Læra af Íslendingum að bregðast við brottkasti
Er ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að bregðast?
Vistaskipti Hafrannsóknastofnunar?
Fiskveiðar og dýravernd
Yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar


Hvenær er fallegt fallegast?

Pétur Bjarnason
3. febrúar 2003

Fjölmiðlar hafa nýlega vakið athygli á skýrslu bandarísks og kanadísks sérfræðings um sjálfbærni fiskveiða hjá þjóðum sem veiða í Norðaustur Atlantshafi. Færeyingar koma vel frá þeim samanburði sem rannsókn sérfræðinganna nær til. Af umfjöllun fjölmiðla má draga þá ályktun að þar með séu færðar sönnur á að færeyska stjórnkerfi fiskveiða sé það besta sem völ er á.

Það getur hvort sem er verið rétt eða ekki. Aðalmálið er að slík ályktun er glannaleg miðað við hvernig að þessari rannsókn er staðið. Í skýrslunni er verið að bera saman framferði 11 fiskveiðiþjóða eftir þremur mismunandi greiningarkerfum m.t.t. meintrar sjálfbærni veiðanna.

Sú fyrsta er það sem kallað er “Rapfish”. Þetta hugtak er afar flókið og tekur til mjög margra þátta, sem flokkaðir eru í vistfræðilega, efnahagslega, félagslega, tæknilega og siðferðilega þætti. Í allt eru þetta tæplega 60 undirþættir og eru gefnar einkunnir fyrir hvern þeirra og síðan vegið og metið hvað út úr þessu kemur fyrir hverja þjóð. Það er athyglisvert að í þessu greiningakerfi fær frjáls markaður fyrir framseljanlega kvóta hæstu einkunn en vægi þessa liðs er auðvitað bara 1 á móti 60.

Í öðru lagi er notast við leiðbeiningar í “Siðareglum FAO um fiskveiðar”, sem tekur á mörgum þáttum um atferli vegna fiskveiða, þótt margir liðir þar séu óljósir og skilgreindir á tvíbentan hátt.

Í þriðja lagi er atferli þessara þjóða metið eftir því hversu löghlýðnar þær hafa verið gagnvart alþjóðlegum samningum - óháð því hvernig þær hafa gengið um  auðlindirnar sem samningar ná til. Ísland lækkar á slíkum lista ef við samþykkjum ekki samning um skiptingu karfakvóta vegna  þess að ekki er vilji til þess hjá öðrum þjóðum að fara eftir þeirri vísindalegu þekkingu sem fyrir hendi er – og þetta er óháð því hvort við stundum veiðarnar á ábyrgan hátt eða ekki. Ef samningamenn okkar myndu bara segja já og amen við því sem ES, Norðmenn og fleiri leggja til gætum við skorað vel á þessum lista.  Þessi þáttur vegur langþyngst í þeim mismun sem fæst á milli okkar og Færeyinga.

Í skýrslunni eru niðurstöður úr þessum þremur greiningum vegnar saman og þá koma Færeyingar best út. Það er ástæða til að óska Færeyingum til hamingju  og að samgleðjast þeim. Hitt tel ég alveg ljóst að skýrslan hjálpar okkur ekki til þess að meta  hvort færeyska fiskveiðikerfið sé betra eða verra en önnur kerfi sem notast er við til að stýra fiskveiðum við Norðaustur Atlantshaf. Ég er ekki að taka afstöðu til þess heldur einungis að benda á að þær forsendur sem þessi niðurstaða byggir á eru margar þannig að enginn Íslendingur er tilbúinn að skrifa upp á þær.

Birt í Morgunblaðinu 3. febrúar 2003 
Fiskifélagsvefurinn er unnin af Origo ehf.