Veftré     Fyrirspurnir   


Fleiri Pistlar

Tengdar greinar
Umfangsmikið stjórnunar- og eftirlitskerfi í Svíþjóð
Ótímabærar fregnir af útrýmingu þorsk
Umhverfismerktar sjávarafurðir í vandræðum
Listin að segja “rétt” frá
Nýir bjargvættir?
Kvótakerfi og byggðamál
Seafood and Health 2005
Líffræðileg fjölbreytni eða fiskveiðar?
“Stórhættulegur” eldislax
Hvenær er fallegt fallegast?
Óðurinn til fáfræðinnar
“Hvalveiðar eins og að skjóta á húsdýr”
Misskilningur um afstöðu til hvalveiða
Brottkastið
Er “umhverfishyggð” Íslendinga að minnka?
Hval- og togveiðibann - fyrir hverja?
Læra af Íslendingum að bregðast við brottkasti
Er ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að bregðast?
Vistaskipti Hafrannsóknastofnunar?
Fiskveiðar og dýravernd
Yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar


Neðansjávarmyndavél Háskólans á Akureyri

Pétur Bjarnason
13. október 2004

Í desember 2001 hélt Fiskifélag Íslands fjölmennan fund um veiðarfæri og veiðarfærarannsóknir. Frummælendur voru sérfræðingar í faginu og urðu fjörugar umræður. Ein klár niðurstaða fundarins var – og sú skoðun hefur oft komið fram - að auka þyrfti rannsóknir á sviði veiðarfæra til þess að þekkja betur umhverfisáhrif þeirra og geta þróað valhæfni þeirra. Framtíðarmarkmið þess verks yrði að útbúa veiðarfæri sem sköðuðu umhverfið sem minnst og veiddi aðeins þá fiska sem ætlunin væri að veiða. Vitaskuld verður löng leið að ná því markmiði en um það er víðtæk samstaða að reyna. 

Jafn undarlega og það hljómar hafa útvegsmenn þessa lands og samtök þeirra LÍÚ oft verið gagnrýnd fyrir að vinna gegn veiðafærarannsóknum þvert á orð þeirra og athafnir. Sú gagnrýni varð að hjómi einu þann 8. september s.l. þegar LÍÚ gaf Háskólanum á Akureyri glæsilega og fullkomna neðansjávarmyndavél, sem einmitt er forsenda veiðarfærarannsókna, þótt hún gagnist einnig í mörg önnur verkefni. Það var ekki upplýst hvað slík myndavél kostar en öllum er ljóst að tækið er afar verðmætt,  gjöfin dýrmæt og að baki gjöfinni stórhugur. Enda er það rangnefni að kalla þetta myndavél því í raun er þarna um lítinn vel tækjum búinn kafbát að ræða, sem hægt er að stjórna til myndatöku, sýnatöku og fleira.

Það fór ótrúlega lítið fyrir þessari frétt í flestum fjölmiðlum landsins, sem endurspeglar ef til vill minnkandi vægi sjávarútvegs í þjóðarbúinu. Engu að síður er þetta stórviðburður. Með þessu tæki skapast vísindamönnum á þessu sviði stórkostlegt tækifæri til þess að efla framfarir í veiðarfæratækni. Það var kynnt við afhendingu myndavélarinnar að Einar Hreinsson á Ísafirði – einn fremsti sérfræðingur landsins í veiðarfærum – hefði verið ráðinn af þessu tilefni til Háskólans á Akureyri með aðsetur á Ísafirði, en auk þess sem tækið verður nýtt í þágu rannsókna Háskólans verðu það leigt út til annarra verkefna eftir því sem við verður komið.

Þessu atburður er ágætt tilefni til þess að benda á – eins og gert var á fyrrnefndum fundi Fiskifélagsins – að íslenskur sjávarútvegur er afar samstíga um að starfa í sem mestri sátt við umhverfi sitt og sýna aðgát í umgengni við náttúruna. Sá stórhugur LÍÚ sem samtökin sýna með þessari gjöf á skilið að eftir henni verði tekið og hafi þau þökk fyrir. Ísland er nær því en áður að vinna afrek í þróun veiðarfæra.

 
Fiskifélagsvefurinn er unnin af Origo ehf.